13.5.2011 | 12:49
Fjölskyldan á fjallið. Gíslholtsfjall
Eftirfarandi frétt barst okkur frá HSK. Við hvetjum alla Garpa til að taka þátt!!
HSK mun taka þátt í verkefninu fjölskyldan á fjallið líkt og undanfarin ár en verkefnið er nú haldið í 10. sinn. HSK hefur alltaf tilnefnt tvö fjöll og eru fjöllin því orðin 20 að tölu. Gíslholtsfjall í Holtum og Bjarnafell í Ölfusi urðu fyrir valinu í ár.
HSK mun standa fyrir fjölskyldugöngu á Gíslholtsfjall fimmtudaginn 19. maí nk. og hefst gangan kl. 19:00. Göngustjóri verður Sverrir Kristinsson bóndi í Gíslholti.
Gísholtsfjall er grasi gróið fjall sem er 168 m.y.s. og er auðvelt uppgöngu. Lagt verður af stað á fjallið skammt frá bæjarhlaðinu í Gíslholti, en bærinn stendur við fjallið. Best er að leggja bílnum innan túngirðingar, vegna hættu á lakkskemmdum (hross). Lausaganga hunda er bönnuð á svæðinu.
Til að komast að Gíslholtsfjalli er farið upp Landveg nr. 26 frá Landvegamótum og svo inn á Hagaveg nr. 286, rétt áður en komið er að Laugalandi. Svo er beygt inn á Heiðarveg nr. 284 við Gísholtsvatn. Einnig er hægt að fara inn á Heiðarveg nr. 284 af þjóðvegi 1, rétt austan við Þjórsárbrú. Þaðan eru 9 km að Gíslholti. Gott útsýni er af fjallinu og sést vel til austurfjalla, láglendi Suðurlands og um uppsveitir.
HSK gangan á Bjarnafell verður síðan þriðjudaginn 31. maí nk. kl. 19:00 og verður nánar greint frá þeirri göngu hér í Sunnlenska þegar nær dregur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.